Hulda Rós Sigurðardóttir listfræðingur:

S A N D U R

 

Verkefnið sem ég ætla að fjalla um heitir Sandur og er ljósmyndasýning sem opnuð var á Stokksnesi 29.júlí 2005. Listamaður hennar er Sigurður Mar Halldórsson ljósmyndari. Sigurður hefur áður sett upp svipaða sýningu úti í náttúrunni, þá í Hallormstaðaskógi árið 1997. Þar sem heildar hugmyndin var það sem skipti miklu máli og sýningin var í raun eitt hugmyndaverk (ásamt því að hafa sterka fagurfræðilega eiginleika) ætla ég að tala um hana í heild sinni en ekki um eitt einstakt ljósmyndaverk. Í sýningunni voru ljósmyndum dreift um fjöruna úti á Stokksnesi. Myndirnar voru 60 cm á hæð, 90-120 cm á breidd og sýndu allar naktan kvenlíkama í hreinni náttúru, aðallega sandi og sjó. Fyrirsætan var mynduð á sama svæði og í sama umhverfi og sýningin sjálf var svo haldin. Þetta voru prentaðar ljósmyndir sem límdar voru á þunnan krossvið. Ljósmyndirnar voru síðan ,,gefnar” náttúruöflunum sjálfum, þar sem þær voru skyldar eftir í fjörunni. Auglýst var að sýningin myndi standa á meðan náttúruöflin myndu leyfa, þar til þær skoluðust í burtu eða sjórinn flæddi yfir. Ferlið var úthugsað og hafði Sigurður áður prófað að festa myndirnar með teinum í sandinn svo að þær myndu liggja að hans smekk á sýningunni að lokum.

 

Sýningin á sér forsögu þar sem Sigurður Mar hafði áður haldið sýningu með svipuðu þema í Hallormsstaðarskógi 1997. Sú sýning hét ,Veðrin eru tæmd. Þar var hugsunin að vinna með umhverfið sem Sigurður þá bjó í á Egilsstöðum. Þessa hugmynd yfirfærði hann svo á umhverfið sem hann bjó í á Hornafirði, þar sem honum fannst sandurinn hafa mest áhrif á sig, rétt eins og skógurinn áður. ,,Pælingin var að vinna með umhverfið þar sem ég bý, fyrir austan var það augljóslega skógur en hér valdi ég svarta sandinn.  Í Hallormsstað héngu myndirnar í trjánum en hér vildi ég að þær lægju á jörðinni” [1] Það má því sjá að sýningin hjá Sigurði var að stóru leyti hugmyndafræðileg og hann gerði fjöruna hugmyndafræðilega um leið og hann dreifði myndunum í hana. Fjaran sem hafði áður verið ósnert náttúra, sandur þar sem sjórinn rennur óhikað undir stjórn náttúruafla, hafði öðlast nýtt hlutverk sýningarrýmis.

 

Útkoman skilaði einstakri fagurfræðilegri upplifun að lokum. Þegar stigið var í fjöruna opnunardaginn blasti við ægifögur náttúra en veðrið var einnig mjög fallegt og gott. Sólin sá um það að lýsa sýninguna á sem fallegastan hátt, betur en nokkur ljóskastari. Hún lýsti einnig upp fjöllin í kring með tilheyrandi skuggatilbrigðum og varð upplifunin því nánast allt að ljóðræn með hughrifum. Þegar litið var á verkin sjálf, blöstu við sömu fallegu sterku litirnir, blár og svartur umkringja nakinn kvenmannslíkama. Vatn og sandur, þessi hreinu form fengu að njóta sín.  Þarna spilaði að minni túlkun inn í hugmyndin um kvenlíkamann sem hluti af náttúrulegu fyrirbæri. Þegar konan hefur farið úr fötunum og yfirgefið öll menningarleg tengsl verður hún hluti af náttúrunni á ný. Sigurður hafði reyndar ákveðin orð um þá ákvörðun að hafa fyrirsætuna nakta: ,,Nakta konan á myndunum er eitthvað sem var kannski ímyndun eða eitthvað sem við erum ekki vön að sjá og eru því einnig aðskotahlutir ef svo má segja.  Það eru til ýmsar sagnir um skógardísir og hafmeyjur sem ganga á land, þetta eru verur sem sjaldnast sjást en fjölmargar sagnir eru til um.  Sagnirnar greina frá íðilfögrum verum sem eru nánast ekki mennskar, svo fagrar eru þær. Ég var svolítið með þetta í huga og það að hafa konurnar naktar fannt mér nauðsynlegt til að myndirnar væru tímalausar.  Nektin fannst mér líka passa mjög vel við nakinn sandinn og andstæðurnar þar á milli voru gríðarlegar” [2]

 

Greinilegt er að hann hafði fengið innblástur frá kven- og kynjaverum sem búa í þjóðsögum fremur en í raunveruleikanum. Í Hallormsstaðarskógi var hugsanlega skógardís á sveimi, en í umhverfi sands og sjós var hafmeyjan í sínu rétta umhverfi.

Tímaleysið sem listamaðurinn vildi reyna að ná fram tókst að skila sér að mörgu leiti. Ef það hefðu verið hús á myndunum í bakgrunni, sem reyndar er að finna í nágrenninu, þá hefði verið hægt að færa rök fyrir öðru. Húsin hefðu því gefið í skyn fortíð en ekki nútíð (þar sem ekki er búið í þeim lengur og eru þetta eyðibýli flest) að svæðið ætti sér menningarlega sögu og væri ekki ómanngert. Þó svo að það hafi ekki sést á verkunum sjálfum, var manngerð náttúra í kring því ekki þurfti að líta lengra en til hægri til að sjá veginn sem lá í áttina að gömlu herstöðinni á Stokksnesi. Þarna má því segja að mitt í allri náttúrufegurðinni, væri menningarleg saga og jafnvel saga svo sterks pólitískts fyrirbæris eins og hernaðar. Þarna mættist því greinilega manngerð og ómanngerð náttúra í sýningunni sjálfri þó svo að það hafi ekki sést á ljósmyndunum og þau haldið tímaleysi sínu. Stutt var í ósnert fjöll, strönd og sjó en á hægri hönd frá sýningunni í kílómeters fjarlægð voru svo leyfar af gamalli herstöð, stað sem á sér mikla sögu.

Ströndin varð ummerkt af mannfólki um leið og það labbaði í henni og skoðaði myndirnar. Spor fólksins urðu eftir í sandinum og bar fjaran því ummerki fólksins eftir þennan dag. Um þetta hafði Sigurður sitt að segja: ,,Að sjálfsögðu var engin gestabók á þessum sýningum en mér fannst gaman að sjá fótspor í sandinum og sumir höfðu greinilega farið úr skónum og trítlað í sandinum á tásunum.  Á sama hátt fannst mér skemmtilegt að koma í Atlavíkurlundinn viku eftir að ég opnaði og sjá að skógarbotninn, sem var að mestu ósnortinn, var allir traðkaður niður eftir sýningargesti.” [3]

Hann hafði hugmynd um það hvernig maðurinn myndi þarna mæta og setja mark sitt á annars ósnerta náttúru. Um leið gerði hann sandinn og fjöruna að almannarými þá daga sem fólk fór að skoða verkin. Sýningin krafðist þátttöku fólksins, að það stigi út í sandinn til að skoða myndirnar. Fyrir utan náttúrufegurðina hefur fyrrverandi herstöð í nálægð gjarnan fengið fólk til þess að skoða þennan stað. Staðurinn er því almannarými á vissan hátt en öðlaðist nýja merkingu sem almannarými með sýningunni Sandur. Sýningin gaf fólki tilefni til þess að mætast á staðnum í skipulagðri listrænni starfsemi.

 

Hægt er að segja að Sigurður hafi frá upphafi tengt verkin staðnum sem þau ættu að standa á. Sýning hans hafði því ,,site-specific” eða var staðbundin list samkvæmt kenningum Miwon Kwon. Sýningin var frá upphafi hugsuð útfrá umhverfinu. Einnig var þetta tímabundið verk, tímabundin sýning þar til náttúruöflin sjálf gripu inn í. Hefðu ljósmyndir Sigurðar virkað eins fallegar í öðru umhverfi? Skipti landslagið og náttúran máli í þessu tilfelli? Samkvæmt minni upplifun og tilfinningu þá fannst mér upplifun verkanna eiga umhverfinu mikið að þakka. Hún hefði verið önnur í hvítu sýningarrými. Þá hefði þetta verið ljósmyndasýning og forsendur hennar breyst. Í staðinn varð sýningin að hugmyndafræðilegum listviðburði. Ekki verður þó tekið frá myndunum sjálfum að þær voru vandaðar ljósmyndir einar og sér. Vel innrammaðar og líkami konunnar var fallega staðsettur í ósnertri náttúru. Það sem gerði sýninguna þó áhugaverðari var staðsetningin og leiktjöldin sem voru náttúran sjálf og fjöllin. Samspil ljósmynda og einstakrar íslenskrar náttúru. Sýningin naut sín sem best í þessu umhverfi og sem tímabundin sýning. Með þeirri ákvörðun Sigurðar, að færa hana ekki síðar meir á sýningarveggi, tók hann afstöðu til þess að standa með hugmyndinni á bakvið sýninguna. Það gerði hann með ákveðnu listrænu innsæi. Að láta náttúruna mæta þessum ,,aðskotahlutum” sem myndirnar voru. Endalok sýningarinnar urðu svipuð og hann hafði hugsað sér. Myndirnar voru komnar á kaf í vatn í byrjun september.

- Hulda Rós Sigurðardóttir                 This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it[1] Hulda Rós Sigurðardóttir. Viðtal við Sigurð Mar Halldórsson.  24. janúar, 2007.
[2] Hulda Rós Sigurðardóttir. Viðtal við Sigurð Mar Halldórsson.  24. janúar, 2007.
[3] Hulda Rós Sigurðardóttir. Viðtal við Sigurð Mar Halldórsson.  24. janúar, 2007